Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 612  —  220. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 8. des.)



I. KAFLI
Breytingar á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 3. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður er hljóðar svo: Sama gildir um húsnæði í skipulagðri frístundabyggð.

2. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
     Síðari málsliður 3. mgr. 1. gr. laganna raskar ekki skráningu lögheimilis í húsnæði í skipulagðri frístundabyggð sem færð hefur verið í þjóðskrá fyrir 1. janúar 2007 en ef viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda hans flytur úr húsnæðinu fellur réttur til skráningar lögheimilis þar niður. Með fjölskyldu er átt við hjón, fólk í staðfestri samvist eða skráðri sambúð og ólögráða börn þeirra.

II. KAFLI
Breytingar á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðskýringunni Framkvæmdaleyfi kemur ný orðskýring er hljóðar svo: Frístundabyggð: Svæði fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til fastrar búsetu.
     b.      Á eftir orðinu „íbúðir“ í orðskýringunni Landnotkun kemur: frístundahús.

4. gr.

    Á eftir orðinu „íbúðarbyggð“ í 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: frístundabyggð.

III. KAFLI
Gildistaka og lagaskil.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. laganna gildir þó ekki um afgreiðslu tilkynninga um flutning lögheimilis í húsnæði í skipulagðri frístundabyggð sem berast Þjóðskrá fyrir 1. janúar 2007.